Erlent

Læknar vilja byssumenn Hamas út af sjúkrahúsum

Óli Tynes skrifar
Palestinskir heilbrigðisstarfsmenn í verkfalli.
Palestinskir heilbrigðisstarfsmenn í verkfalli.

Palestinskir heilbrigðisstarfsmenn á Gaza ströndinni hófu í dag þriggja daga verkfall. Krafan er ekki hærri laun heldur að Hamas samtökin fjarlægi vopnaða vígamenn sína frá sjúkrahúsum, og leyfi læknum að starfa óáreittum. Hamas hafa handtekið lækna sem tilheyra Fatah samtökunum.

Hamas lögðu undir sig Gaza ströndina í síðasta mánuði og eftir það rak Abbas forseti þau úr ríkisstjórn sinni. Ástandið er nú þannig að Hamas stjórna Gaza ströndinni en Fatah vesturbakkanum. Enginn samgangur er þar á milli.

Heilbrigðisstarfsmennirnir taka verkfall sitt í áföngum. Tvo tíma á dag í þrjá daga. Neyðarmóttökur verða áfram opnar. Þeir segja að ekki sé hægt að þverfóta fyrir Hamas liðum á sjúkrahúsunum og að þeir fylgist náið með öllum sem þangað leiti.

Við það sé ekki hægt að sætta sig. Vopnaðir menn eigi ekkert erindi inn á sjúkrahús.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×