Erlent

Fjölmargir Norðurlandabúar unnu fyrir Stasi

Óli Tynes skrifar
Höfuðstöðvar Stasi.
Höfuðstöðvar Stasi.

Sænski rannsóknarblaðamaðurinn Björn Cederberg segir að fjölmargir Norðurlandabúar hafi unnið fyrir Stasi, hina illræmdu leyniþjónustu Austur-Þýskalands. Cederberg hefur verið að rannsaka skjalasafn leyniþjónustunnar undanfarin fimm ár. Íslensk stjórnvöld létu á sínum tíma rannsaka hugsanleg tengsl nokkurra Íslendinga við Stasi. Cederberg hefur ekki enn nafngreint þá Norðurlandabúa sem hann telur hafa unnið fyrir Austur-Þjóðverja.

Cederberg var einkum að leita að Svíum í skjalasafninu og hann telur að sænskir njósnarar og uppljóstrarar hafi verið yfir fimmtíu talsins. Cederberg telur einnig að tugir Norðmanna og Dana hafi verið á mála hjá Stasi.

Stasi hafði á sínum tíma óteljandi njósnara og uppljóstrara á sínum vegum. Austur-Þjóðverjar hvoru hvattir til þess að njósna hver um annan. Börn voru hvött til að ljóstra upp um foreldra sína.

Sú saga er sögð að þegar Stasi var leyst upp eftir fall kommúnismans hafi Vestur-Þjóðverji spurt austur-þýskan vin sinn hvað allir Stasi njósnararnir færu nú að gera. Svarið var að auðvitað yrðu þeir allir leigubílstjórar.

"Af hverju auðvitað ?"

"Jú, það liggur beint við. Þú bara segir þeim hvað þú heitir og þá vita þeir hvar þú átt heima."

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×