Erlent

Felur eistun fyrir lögreglunni

Óli Tynes skrifar
Lögregluna grunar að skottulæknir hafi fjarlægt eistu Russells.
Lögregluna grunar að skottulæknir hafi fjarlægt eistu Russells.

Lögreglan í Minnesota í Bandaríkjunum leitar nú logandi ljósi að eistunum af Russell Daniel Angusi. Þau eru horfin og Russell Daniel Angus neitar að upplýsa hvar þau eru niðurkomin. Málið hófst með því að Russell leitaði til lækna til þess að láta fjarlægja eistun. Hann hélt því fram að þau yllu sér miklum kvölum. Russell er 62 ára gamall.

Læknarnir rannsökuðu hann nákvæmlega og fundu ekkert athugavert við fjölskyldudjásnin. Og ekkert sem gæti valdið Russell þeim sársauka sem hann hélt fram. Þeir neituðu því að gera aðgerðina. Svo fann dóttir Russels hann þar sem hann lá í blóði sínu á eldhúsborðinu og eistun voru horfin.

Lögregla og sjúkralið kom á vettvang. Lögregluna grunar að Russell hafi fengið einhvern skottulækni til að gera aðgerðina. Hún leitar nú að honum....og eistunum. Það fylgir ekki þessari frétt hvort Russell hafi verið sálgreindur. Það er hinsvegar vitað um sálrænan sjúkdóm sem kalla mætti aflimunarsýki. Fólk sem þjáist af honum er haldið sjúklegri þörf fyrir að láta taka af sér útlimi. Þótt þeir séu algerlega heilir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×