Erlent

Afrit af samskiptum brasilísku flugmannanna birt

Slysið átti sér stað 17. júlí síðastliðinn
Slysið átti sér stað 17. júlí síðastliðinn MYND/AP

Afrit af síðustu sekúndum samskipta flugmannanna tveggja sem voru við stjórnvölinn þegar versta flugslys í brasilískri sögu átti sér stað var í dag lesið upp fyrir rannsóknarnefnd brasilíska þingsins. Samkvæmt upptökum úr flugvélinni kallaði annar flugmanna að hægja þyrfti ferðina en hinn svaraði því til að hann gæti það ekki.

Flugvélin, sem var frá Tam flugfélaginu, fór framhjá flugbrautinni á flugvellinum í Sao Paulo, lenti á byggingum og sprakk með þeim afleiðingum að tvö hundruð manns létu lífið.

Afritið af samskiptum flugmannanna lýsir síðustu augnablikunum áður en slysið átti sér stað og þeirri örvæntingu sem greip um sig hjá flugmönnunum.

Síðust orðin sem heyrðust voru: "Beygðu, beygðu, beygðu! Ó, nei!" Í kjölfari fylgdu öskur og svo heyrðist sprenging. Ýmsar vangaveltur hafa verið uppi um ástæður flugslysins en engar verið staðfestar. Afritin ýta undir vangaveltur um að eitthvað hafi verið að hemlunarbúnaði vélarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×