Erlent

Ég trampaði á hálsi hennar til að ná sálinni út

Óli Tynes skrifar
Old Baily dómshúsið í Lundúnum.
Old Baily dómshúsið í Lundúnum.

Breskur kviðdómur heyrði í dag lýsingu á skelfilegum endalokum tvítugrar kúrdiskrar stúlku. Fjölskylda hennar og vinir myrtu hana fyrir að kasta rýrð á heiður fjölskyldunnar. Hún hafði orðið ástfangin af röngum manni. Henni var nauðgað og misþyrmt áður en hún var kyrkt.

Banaz Mahmod var neydd til þess að giftast íröskum kúrda þegar hún var 17 ára gömul. Hjónabandið var óhamingjusamt og Banaz yfirgaf eiginmann sinn. Síðar varð hún ástfangin af írönskum kúrda. Fjölskyldan ákvað þá að myrða hana.

Viðstaddir morðið voru faðir hennar, föðurbróðir, vinur fjölskyldunnar og tveir aðrir menn sem enn ganga lausir. Faðirinn og föðurbróðirinn voru sakfelldir fyrir morðið í síðasta mánuði. Í dag heyrði kviðdómurinn svo sögu fjölskylduvinarins.

Kviðdómurinn heyrði hvernig henni var nauðgað hrottalega. Svo var hún barin og henni misþyrmt á allan hátt áður en hún var kyrkt með skóreim. Kviðdómurinn fékk að heyra samtal sem fjölskylduvinurinn átti við vin sinn í fangelsinu. Þeir hlógu að örlögum Banaz.

Fjölskylduvinurinn lýsti því hvernig hann hafði myrt hana. "Ég sparkaði í hana og trampaði á hálsi hennar, til þess að ná sálinni út. Ég sá hana alls nakta. Aðeins í nærbuxum eða undirfötum."

Eftir morðið var líki Banaz troðið í ferðatösku sem farið var með frá Lundúnum til Birmingham. Þar var taskan grafin í bakgarði og fannst ekki fyrr en þrem mánuðum síðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×