Erlent

Innanríkisráðherra Breta reykti kannabis á yngri árum

Jónas Haraldsson skrifar
Jacqui Smith, innanríkisráðherra Breta, segir að henni hafi ekki fundist neitt sérstakt að reykja kannabis.
Jacqui Smith, innanríkisráðherra Breta, segir að henni hafi ekki fundist neitt sérstakt að reykja kannabis. MYND/AFP

Jacqui Smith, innanríkisráðherra Breta, hefur viðurkennt að hafa reykt kannabis þegar hún var við nám í Oxford háskóla á níunda áratugnum. Játning hennar kemur fram daginn eftir að Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, tilkynnti að hún myndi vera yfir nefnd sem á að endurskoða stefnu landsins í fíkniefnamálum.

„Ég braut lögin... Þetta voru mistök... fíkniefni eru mistök," sagði Smith, sem er 44 ára. Hún sagði að hún hefði aðeins reykt „nokkrum sinnum," og að hún hefði „ekki notið þess," sérstaklega. Þá tók hún fram að hún hefði ekki notað önnur fíkniefni.

Þegar hún var spurð hvers vegna nemendur ættu að hlusta á hana sagði hún að á síðastliðnum 25 árum hefði komið í ljós hversu hættulegt væri að reykja kannabis. Þar vísaði í hún áhrif þess á andlega heilsu neytandans sem og löngun hans til þess að sífellt stækka skammtinn.

Smith telur að kannabisreykingar hennar geri hana ekki óhæfa til þess að vera innanríkisráðherra Bretlands.

Fréttavefur BBC skýrði frá þessu í morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×