Erlent

Gleymdu börnunum vegna tölvuleikjafíknar

Ungt par sem var handtekið fyrir að vanrækja börnin sín tvö sagði tölvuleiki og internetið vera ástæðurnar fyrir vanrækslunni. Börnin, sem eru 22 mánaða strákur og 11 mánaða stúlka, voru alvarlega vannærð og nær dauða en lífi þegar þau voru færð á sjúkrahús.

Michael Straw, 25 ára, og Iana Straw, 23 ára, játuðu á sig vanrækslu á föstudaginn síðastliðinn. Þau eru frá Reno í Nevada-ríki í Bandaríkjunum. Bæði eiga þau yfir höfði sér allt að 12 ára fangelsisdóm. Saksóknari sagði að fólkið hefði einfaldlega tapað sér í netútgáfu tölvuleiksins „Dungeons & Dragons" og gleymt að hugsa um börnin sín.

Starfsfólk á sjúkrahúsinu varð að klippa hárið af 11 mánaða stúlkunni þar sem það var útatað í kattahlandi. Þá hafði hún sýkingu í munni, of þurra húð og þjáðist af alvarlegum vökvaskorti. Hungur hafði leikið strákinn grátt auk þess sem hann hafði kynfærasýkingu. Þá höfðu vöðvar hans ekki náð að þroskast almennilega vegna vannæringar og átti hann því erfitt með gang. Bæði börnin dafna nú vel hjá fósturforeldrum.

Sérfræðingar hafa ekki enn viljað samþykkja að það að vera háður tölvuleikjum sé sálrænt vandamál, eins og alkóhólismi eða eiturlyfjafíkn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×