Erlent

Viðræður hafnar við vígamenn í Rauðu moskunni

Jónas Haraldsson skrifar

Pervez Musharraf, forseti Pakistan, hefur skipað samninganefnd til þess að ræða við vígamennina í Rauðu moskunni. Nefndin var skipuð eftir samráðsfund með áhrifamiklum klerkum sem réðu honum gegn því að ráðast inn í moskuna. Umsátrið um moskuna hefur nú staðið yfir í heila viku.

Ekki er vitað hversu margir eru enn inni í moskunni en talið er að 50 til 60 vígamenn séu þar inni. Ráðherra í stjórn Musharraf sagði áður að erlendir vígamenn væru í moskunni. Þá er talið að þeir hafi tekið völdin af Abdul Rashid Ghazi, klerkinum sem enn er þar. Vígamenn og öryggissveitir hafa skipst á skotum í morgun en öryggissveitirnar hafa ekki enn ráðist til atlögu.

Rauða moskan er fræg fyrir það að vilja koma á sharía lögum í Islamabad. Við hana er Jamia Hafsa bænaskólinn og klerkar moskunnar hafa þar kennt öfgakennd fræði sín, sem eru ekki ósvipuð þeim sem talibanar boða. Moskan og skólinn hafa lengi verið þyrnir í augum yfirvalda en þau hikuðu við að grípa til aðgerða. Þar sem yfirvöld aðhöfðust ekkert og vildu aðeins viðræður, færðu hóparnir sig upp á skaftið. Moskan gerði þá út vopnaða hópa sem gengu um borgina og hótuðu því fólki sem þeir þóttu brjóta gegn sharía-lögum.

Þá er talið að vígamennirnir séu ósáttir við fjölda Kínverja í landinu. Fyrir rúmri viku síðan rændi hópur nemenda frá moskunni sjö kínverskum nuddkonum sem hann sakaði um að starfa sem vændiskonur. Kínverjar sendu þá frá sér opinbera yfirlýsingu þar sem ránin voru fordæmd og rannsóknar var krafist á málinu. Musharraf ákvað þá, eftir mikinn þrýsting frá stjórnarandstöðunni og erlendum stjórnvöldum, að grípa til aðgerða og skipaði öryggissveitum að umkringja moskuna.

Þá voru þrír Kínverjar myrtir í árás í gærkvöldi í borginni Peshawar en árásin er talin tengjast atburðunum við Rauðu moskuna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×