Erlent

Live Earth í dag

Guðjón Helgason skrifar

Þekktir tónlistarmenn rokka víða um heim í dag og vilja með tónlist sinni vekja athygli á loftslagsmálum. Tónleikar þar sem hver stórstjarnan kemur fram á fætur annarri eru haldnir í níu borgum í öllum álfum heims og voru það Ástralir og Kínverjar sem hófu leikinn í nótt.

Tónleikarnir hófust í Sydney í Ástralíu tíu mínútur yfir miðnætti að íslenskum tíma. Síðan var tekið við keflinu í Tokyo í Japan þremur tímum síðar. Tónlistarmenn í Jóhannesarborg í Suður Afríku hófu að þenjan raddböndin klukkan tíu að íslenskum tíma og listamenn í Sjanhæ í Kína hálftíma síðar.

Tónleikar hófust í Hamborg í Þýskalandi í hádeginu og klukkan hálf eitt var byrjað á Wembley leikvanginum í Lundúnum. Sungið verður í Washington frá klukkan hálf fjögur og í New Jersey verður einnig leikið upp úr klukkan hálf átta. Lokatónleikarnir verður svo í Ríó í Brasilíu frá klukkan átta.

Meðal skemmtikrafta á tónleikunum í dag eru Madonna, hljómsveitin Red Hot Chili Pepers, The Police með Sting í fararbroddi, Metallica og sveitasöngvarinn Garth Brooks, svo einhverjir séu nefndir.

Það er Al Gore, fyrrverandi vara-forseti Bandaríkjanna, sem hefur skipulagt viðburðina og verður viðstaddur í nokkrum borganna. Í Sydney í nótt kom hann fram á risaskjá í gegnum gervihnött. Hann sagði miklu skipta að vekja athygli á þeirri vá sem steðjaði að heiminum vegna loftslagsbreytinga. Hann sagði rödd hvers og eins jarðarbúa skipta máli í því efni.

Framtak Gores hefur þó ekki farið gagnrýnilaust af stað. Þeir sem andmæla því segja það hræsni að senda skemmtikrafta milli landa í flugi þegar skilaboðin séu að draga skuli úr mengandi útblæstri hvers konar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×