Erlent

Hús sprakk í Svíþjóð

Kröftug sprenging varð í húsi í Södersvik austan við Norrtälje í Svíþjóð í nótt og er það gjörónýtt. Enginn var í húsinu sem er til útleigu en næstu leigjendur áttu að taka við á morgun. Samkvæmt lögreglu hafði enginn haft í hótunum við þá sem tengjast húsinu og urðu eigendurnir fyrir miklu áfalli, að því er Dagens nyheter greinir frá. Vitni segjast hafa séð til manneskju stökkva inn í bíl og yfirgefa staðinn áður en sprengingin varð.

Tígulsteinar feyktust fleiri hundruð metra burt frá húsinu en það stendur fremur afskekkt og urðu ekki skemmdir á nærliggjandi húsum. Töluvert af steinum festist uppi í trjám og hefur lögregla varað fólk við að ganga um svæðið í kringum húsið vegna hættu á að steinarnir geti fallið niður. Ekkert gas var í húsinu og grunur leikur á að sprengju hafi verið komið þar fyrir.

Atvikið minnir um margt á sprengingu sem varð í einbýlishúsi í Lystrup í Danmörku fyrir skemmstu en það var jafnað við jörðu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×