Erlent

Mótmæltu mannránum og ofbeldi

Jónas Haraldsson skrifar

Hundruð þúsunda manna í Kólumbíu mótmæltu í gær mannránum FARC, samtökum vinstri sinnaðra uppreisnarmanna. Talið er að um þrjú þúsund Kólumbíumenn séu nú í haldi mannræningja.

Mótmælin voru haldin eftir að FARC myrti 11 stjórnmálamenn sem þau höfðu í haft í haldi síðastliðin fimm ár. Stjórnvöld og kaþólska kirkjan skipulögðu mótmælin. Kólumbíumenn erlendis héldu einnig mótmæli í en þau voru þau stærstu sem haldin hafa verið síðan árið 1999 en þá komu rúmlega fimm milljónir manna saman á götum úti til þess að mótmæla ofbeldi og mannránum.

Fólkið krafðist þess að uppreisnarhópar slepptu öllum sem þeir hafa í haldi án skilyrða. Á meðal þeirra sem tóku þátt í mótmælunum voru forseti Kólumbíu, Alvaro Uribe, og utanríkisráðherrann Fernando Araujo. Hann slapp úr klóm FARC eftir að hafa verið haldið í gíslingu í sex ár.

Síðustu tíu árin hefur fleiri en 23 þúsund manns verið rænt í Kólumbíu og fleiri en eitt þúsund hafa látið lífið í haldi mannræningja. Hvergi í heiminum er fleiri manns rænt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×