Erlent

Evrópusambandið slær í gegn á YouTube

Jónas Haraldsson skrifar

Eitt vinsælasta myndbandið á vefveitunni YouTube þessa dagana er myndband frá Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins. Myndbandið fjallar hins vegar ekki um landbúnaðarsáttamála þess heldur er það samantekt af kynlífsatriðum úr evrópskum bíómyndum.

Framkvæmdastjórnin opnaði nýverið síðu á Youtube og setur þar inn alls konar myndbönd sem hún lætur framleiða fyrir sig. Þar á meðal er myndbandið „Let's come together", sem gæti útlagst á íslensku sem „Komum saman." Því er ætlað að sýna brot úr evrópskum bíómyndum sem sambandið hefur styrkt.

Fréttamannafundur Framkvæmdastjórnarinnar í dag um reglugerðir á vínmarkaði í Evrópu breyttist brátt í umræður um myndbandið og efni þess. Fréttamenn spurðu hvort að þetta væri besta leiðin til þess að eyða skattpeningum Evrópubúa og hvort að titill myndarinnar skilaði sér á hinum tungumálum Evrópusambandsins.

Talsmaður Framkvæmdastjórnarinnar sagði að myndbandið hefði ekki hlotið neina gagnrýni þær fjórtán vikur sem það hefur verið á YouTube. Hann hafnaði allri gagnrýni og sagði Evrópusambandið ekki vera biblíubelti. Hann bað fréttamenn að hafa húmor og fara ekki rífast um hvað væri klám, hvað erótík og hvað væri eðlilegt að horfa á í sjónvarpi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×