Erlent

Yfirvöld í Ástralíu fá 48 klukkustunda frest til að halda indverskum lækni

Dómari hefur gefið yfirvöldum í Ástralíu 48 klukkustunda frest til að halda indverskum lækni, sem handtekinn var í gær, án ákæru. Læknirinn Mohammed Haneef var handtekinn í tenglsum við sprengjutilræðin á Bretlandseyjum um síðustu helgi.

Ástralski lögreglumaðurinn Mick Keetley sagði að mögulega verði fresturinn framlengdur ef hægt er að sýna fram á rökstuddan grun. Lögreglan hefur sleppt fyrrverandi samstarfsfélaga Haneefs úr haldi eftir yfirheyrslur.

Samkvæmt upplýsingum BBC fréttastofunnar á Haneef að hafa verið í símasambandi við þá menn sem grunaðir eru um aðild að hinum misheppnuðu sprengjutilræðum í London og Glasgow. Lögreglan reynir að komast að því hvort hann hafi haft einhverja vitneskju um þau.

Fjölskylda Haneefs hefur sagt fjölmiðlum að hann sé saklaus og að hann hafi lagt sig fram um að vera góður læknir. Gold Coast spítalinn þar sem hann starfar hefur ekki sagt starfi hans lausu og bíður átekta.

Haneef var handtekinn á Brisbane flugvellinum eftir ábendingu frá Bresku lögreglunni. Hann var þá með miða aðra leiðina til Indlands. Fjölskylda Haneefs segir að hann hafi verið á leiðinni að heimsækja nýfædda dóttur sína.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×