Erlent

Tveir læknar í Ástralíu handteknir

Guðjón Helgason skrifar

Tveir læknar voru í nótt og í morgun hnepptir í varðhald í Ástralíu í tengslum við rannsókn á sprengjutilræðunum á Bretlandseyjum um helgina. Sjö til viðbótar eru í haldi í Bretlandi - fimm þeirra eru sagðir læknar.

Rannsóknin á hryðjuverkaárásinni á Glasgow-flugvelli á laugardaginn og bílsprengjunum sem fundust í Lundúnum degi áður vindur enn upp á sig og teygir nú anga sína allt til Ástralíu.

Mohammed Haneef, 27 ára gamall Indverskur læknir var handtekinn á flugvellinum í Brisbane þar sem hann var á leið úr landi - sagður með miða aðra leið til Indlands. Hann hefur starfað sem læknir á sjúkrahúsi í Queensland síðan í september í fyrra.

Leit var gerð í húsi hans og segja vitni að lögregla hafi borið fjölmarga muni út af heimili Haneefs, þar á meðal tölvu. Í framhaldi af því var annar læknir handtekinn og færður til yfirheyrslu í morgun en sá mun hafa starfað um tíma sem læknir í Liverpool en var nú staddur í Ástralíu. Nafn hans hefur ekki verið gefið upp. Lögregla leggur áherslu á að mennirnir hafi ekki verið ákærðir.

Sjö til viðbótar eru í haldi lögreglu á Englandi og í Skotlandi vegna málsins. Breska blaðið Independent segir í morgun að fimm þeirra séu læknar og til viðbótar hafi verið leitað á heimili þess sjötta sem hefur þó ekki verið hnepptur í gæsluvarðhald.

Viðbúnaður er enn mikill á Bretlandseyjum vegna málsins og sprengdi lögregla tvær grunsamlegar bifreiðar fyrir utan mosku í Glasgow í morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×