Erlent

Hamas handtaka talsmann Hers íslam

MYND/AFP
Hamas samtökin hafa handtekið talsmann hópsins Her íslam sem heldur fréttamanninum Alan Johnston í gíslingu. Hugsanlegt er að Hamas muni notfæra sér það til þess vinna að lausn Johnstons. Samtökin hafa krafist þess að hópurinn láti hann lausann.

Her íslam hefur hins vegar neitað að verða við kröfu Hamas og segjast ætla að myrða Johnston ef reynt verður að frelsa hann með valdi. Þá hefur hópurinn krafist þess að Bretar láti fyrst lausan róttækan klerk sem þeir hafa í haldi.

Hamas sagðist ætla að frelsa Johnston með valdi en hafa beðið með það að beiðni breskra yfirvalda. Talið er að samtökin viti hvar honum er haldið.

Aldrei áður hefur fréttamanni á Gaza verið haldið svo lengi. Fleiri en 100 dagar eru nú liðnir frá því Johnston var tekinn höndum af Her íslam. Hópurinn kom einnig að því að ræna ísraelska hermanninum Gilad Shalit fyrir meira en ári síðan.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×