Erlent

Algert bann við umskurði kvenna í Egyptalandi

Susanne Mubarak hefur talað gegn umskurði kvenna
Susanne Mubarak hefur talað gegn umskurði kvenna MYND/AFP

Stjórnvöld í Egyptalandi hafa lagt algert bann á umskurð kvenna. Ákvörðunin er tekin í kjölfar þess að ung stúlka dó nýlega á meðan á umskurði stóð. Bann við umskurði kvenna tók gildi í Egyptalandi fyrir 10 árum en var aðgerðin þó leyfð í sérstökum tilfellum og þá eingöngu ef hún var í höndum hæfra lækna.

Talsmaður heilbrigðisráðuneytisins í Egyptalandi segir nú að hvorki opinberum eða einkareknum stofnunum verði leyft að framkvæma umskurð. Verði einhver uppvís að því muni sá hinn sami hljót refsingu.

Þegar unga stúlkan sem var 12 ára lést upphófst reiðialda í landinu og þrýstu mannréttindasamtök á stjórnvöld og heilbrigðisstarfsfólk að binda enda á allar slíkar aðgerðir. Læknirinn sem framkvæmdi aðgerðina hefur verið handtekinn.

Susanne Mubarak forsetafrú Egyptalands hefur talað gegn umskurði kvenna og segir hann alvarlegt dæmi um það andlega og líkamlega ofbeldi sem börn þurfi að þola og að því verði að linna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×