Erlent

Óttast að stífla muni bresta

Á myndinni má sjá hermenn keyra um götur Sheffield.
Á myndinni má sjá hermenn keyra um götur Sheffield. MYND/AFP

Hundruð íbúa í Suður-Jórvíkurskíri í Englandi flýja nú heimili sín af ótta við að stífla á svæðinu eigi eftir að bresta eftir gríðarlega rigningu undanfarna daga. Verkfræðingar eru að störfum við að reyna að styrkja stífluna. Sprungur byrjuðu að myndast í stíflunni þegar í nótt. Miklar rigningar hafa leitt til flóða víðs vegar um landið. Ástandið fer þó batnandi.

Í Sheffield eru þó 900 manns í neyðarskýlum eftir að hafa þurft að yfirgefa heimili og vinnustaði vegna flóða. Á fréttamannafundi í morgun lofaði lögreglan í Sheffield þrautseigju íbúanna. Jafnframt sagði borgarráðið að töluverðar skemmdir hefðu orðið víða um borgina og talið er að kostnaðurinn muni hlaupa á milljónum punda.

13 þúsund manns á Englandi hafa þurft að glíma við rafmagnsleysi vegna flóðanna. Þá hafa þrír látist í þeim. Einn fjórtán ára drengur sem var á leið heim úr skólanum, fór of nærri ánni og féll út í. 68 ára maður lét lífið þegar hann reyndi að komast úr bíl sínum. Þá drukknaði maður sem festi fótinn í niðurfalli þegar hann var að reyna að losa um stíflu sem hafði myndast í því.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×