Erlent

Friðarverðlaunahafi forseti Ísraels, en óöldin heldur áfram

Sigríður Guðlaugsdóttir skrifar

Enginn endir virðist á óöldinni í miðausturlöndum. Sautján létust á Gasa í dag og tíu í Beirút í bardögum og sprengjutilræðum. En maðurinn sem hlaut friðarverðlaun Nóbels fyrir þátt sinn í friðarferli sem kvað á um brotthvarf Ísraelshers frá Gaza, er nú öruggur með að verða næsti forseti Ísraels.

Í það minnsta sautján létust í bardögum á Gasa svæðinu þegar byssubardagar geisuðu þar í dag. Erkifjendur Hamas og Fatah hreyfinganna hafa barist í Rafah um yfirráð yfir öryggissvæðum síðan á laugardag. Sextíu manns hafa látist á síðustu viku. Byssubardagar hafa einnig brotist út í bænum Nablus á norðurhluta Gasa. Mahmoud Abbas forseti Palestínu segir ástandið geðveikislegt og varaði við því að áframhaldandi ofbeldi gæti orðið héraðinu að falli.

Líbanski þingmaðurinn Walid Eido lést í sprengjutilræði í Beirút í dag. Níu aðrir létust í tilræðinu sem framið var á hafnarsvæði þar sem meirihluti íbúa eru múslimar. Tvær vikur eru liðnar síðan öryggisráð Sameinuðu þjóðanna ákvað að setja upp sérstakan dómstól til að rannsaka dauða fyrrum forsætisráðherrans Rafik Hariri, sem lést í sprengjutilræði í höfuðborginni árið 2005.

Shimon Peres er öruggur um að verða næsti forseti Ísraels eftir að tveir aðrir frambjóðendur til embættisins drógu sig í hlé í dag. ísraelska þingið velur forseta landsins sem er valdalítill en hefur mikil áhrif. Shimon Peres er 84 ára gamall og á að baki langan feril í ísraelskum stjórnmálum. Árið 1994 hlaut hann friðarverðlaun Nóbels ásamt þeim Yitzhak Rabin og Yasser Arafat, fyrir þátt sinn í Oslóar samkomulaginu. Peres hefur löngum verið öflugur talsmaður friðar og samkomulags við Palestínumenn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×