Erlent

Ekki nægar sannanir fyrir leynifangelsum

Óli Tynes skrifar

Orð ónafngreindra heimildarmanna duga ekki til þess að sanna að bandaríska leyniþjónustan, CIA hafi rekið leynifangelsi í Póllandi og Rúmeníu, að mati yfirmanns öryggismála hjá Evrópusambandinu. Franco Frattini segist þó munu leita frekari upplýsinga frá löndunum tveim.

Svissneski þingmaðurinn Dick Marty stjórnar rannsóknarnefnd Evrópuráðsins sem kannaði ásakanir um leynifangelsi. Hann sagði í síðustu viku að hann hefði sannanir fyrir því að slík fangelsi hafi verið í fyrrnefndum tveim löndum. Að auki sagði hann að meðal annars að Þjóðverjar og Ítalir hefðu hylmt yfir með Bandaríkjamönnum.

Marty sagðist ekki geta nafngreint heimildarmenn sína þar sem þeim hefði verið lofað leynd. Bæði Pólland og Rúmenía hafa neitað þessum ásökunum. Það gæti haft alvarlegar afleiðingar fyrir aðildarríki Evrópusambandsins ef sannast að þau hafi leyft leynifangelsi í landi sínu. Meðal annars gætu þau verið svipt atkvæðisrétti innan sambandsins.

Bush Bandaríkjaforseti hefur viðurkennt að CIA hafi rekið fangelsi á erlendri grund. Hann nefndi hinsvegar engin lönd í því sambandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×