Erlent

Bush í Róm

Guðjón Helgason skrifar

Bush, Bandaríkjaforseti, kom í Vatíkanið í Róm í morgun til fundar við Benedikt páfa sextánda. Bush mun einnig funda með Prodi, forsætisráðherra Ítalíu. Leynifangelsi og fangaflug verða ekki rædd við Prodi þó réttarhöld tengd séu hafin á Ítalíu.

Bush er á ferð um Evrópu. Hann fór til Póllands í gær eftir að fundi leiðtoga átta helstu iðnríkja heims lauk í Heiligendamm í Þýskalandi. Þar fundaði hann með Lech Kaczynski, forseta Póllands, um eldfalugavarnarkefið sem Bandaríkjamenn vilja reisa þar og í Tékklandi. Kerfið var til umræðu á fundi Bush og Pútíns Rússlandsforseta í Heiligendamm í fyrradag. Kaczynksi lagði áherslu á að Pólverjar væru fylgjandi kerfinu og að Rússar þyrftu ekki að hræðast það.

Frá Póllandi hélt Bush til Ítalíu. Fyrst heimsóttu hann og kona hans Laura, Giorgio Napolitano, forseta Ítalíu, og konu hans í forsetahöllinni í Róm. Þá héldu þau í Páfagarð þar sem forsetinn fundaði í fyrsta sinn með Benedikt sextánda páfa. Vel fór á með þeim. Þeir eru sagðir á einu máli þegar kemur að andstöðu við fóstureyðingar, líknardráp og hjónabönd samkynhneigðra. En þegar kemur að Íraksstríðinu gegnir öðru máli. Talið var fyrir fundinn að páfi myndi leggja áherslu á vanda kristinna manna í Írak.

Bush fundar síðar í dag með Romano Prodi, forsætisráðherra Ítalíu, en síðast hittust þeir á fundinum í Heiligendamm. Prodi segir fangaflug og leynifangelsi ekki verða á dagskrá þrátt fyrir skýrslu Evrópuráðsins um þann rekstur frá í gær.

Málið brennur á Ítölum í ljósi þess að réttarhöld vegna svokallaðra sértækra flutninga bandarísku leyniþjónustunnar, CIA, hófust í Mílanó í gær. 26 Bandaríkjamenn, allir hermenn eða njósnarar CIA, og 6 Ítalar eru ákærðir fyrir að hafa rænt múslima klerk á Ítalíu og sent hann til Egyptalands þar sem hann mun hafa verið pyntaður. Réttað verður yfir Bandaríkjamönnunum að þeim fjarverandi.

Búist er við mótmælum í Róm vegna heimsóknar Bush og tíu þúsund lögreglumenn því á vakt í miðri Rómarborg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×