Erlent

Fara ekki heim fyrr en Maddie er fundin

Foreldrar Madeleine McCann, litlu telpunnar sem rænt var í Portúgal fyrir tæpum tveimur vikum, eru viss um að dóttir þeirra sé heil á húfi og ætla ekki að snúa aftur til Bretlands fyrr en hún er komin í leitirnar. Eggert Magnússon, stjórnarformaður West Ham, er á meðal þeirra sem lofað hafa þeim fé sem varpað geta ljósi á hvarf Madeleine.

Ellefu dagar eru liðnir frá því að Madeleine litla McCann var numin á brott af hótelherbergi sínu á Praia de Luz á Algarve. Afar umfangsmikil leit hefur verið gerð að telpunni en portúgalska lögreglan hefur viðurkennt að hún hafi engar vísbendingar um hvar hún sé niðurkomin. Í morgun tjáðu foreldrar Madeleine sig í fyrsta sinn um hvarf dóttur sinnar. Þeir þökkuðu fjölmiðlum fyrir að hafa vakið athygli á málinu og ræddu jafnframt um hversu erfiðir undanfarnir ellefu dagar hefðu verið. Engu að síður kváðust hjónin sannfærð um að dóttir þeirra væri heil á húfi og það héldi þeim gangandi.

Leitinni að telpunni verður haldið áfram og á meðan er ekkert fararsnið á foreldrum hennar.

Fjölmargir í Bretlandi hafa samtals lofað þeim sem geta gefið upplýsingar um hvarfið um 315 milljónum króna. Í þeim hópi er Eggert Magnússon, stjórnarformaður West Ham, svo og J.K. Rowling, höfundur bókanna um Harry Potter, og knattspyrnumaðurinn Wayne Rooney.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×