Innlent

Kjarvalshús til sölu

Sigríður Guðlaugsdóttir skrifar

Húsið sem byggt var af íslensku þjóðinni fyrir Jóhannes Kjarval myndlistarmann er nú til sölu. Ekki er vitað til þess að listamaðurinn hafi nokkurn tíman komið inn í húsið. Húsið stendur á sjávarlóð á Sæbraut á Seltjarnarnesi og þaðan er glæsilegt útsýni. Stofan var ætluð sem vinnustofa Kjarvals, en hún er hundrað og tíu fermetrar og skartar fimm metra lofthæð.

Alþingi samþykkti árið 1945 að byggja hús fyrir listamanninn. Málið velktist í kerfinu og tvö hús voru teiknuð. Að lokum var það Þorvaldur S. Þorvaldsson arkitekt sem hannaði húsið. Það var síðan byggt á sjöunda áratugnum. Kjarval hafði sjálfur óskað eftir lóð undir vinnustofu í Laugarásnum en fékk ekki. Þá hafði hann verið á hrakhólum með vinnustofuaðstöðu. Frá árinu 1966 bjó hann á Hótel Borg og kom aldrei inn í húsið á Seltjarnarnesinu. Sverrir Kristjánsson fasteignasali segir ómögulegt að segja til um verð á húsinu.

Húsið fór á frjálsan markað árið 1990 þegar makaskipti urðu með eignir í eigu ríkisins til Sláturfélags Suðurlands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×