Erlent

Tyrkneski herinn segist verndari stjórnkerfisins

Erdogan og Gul sjást hér sitja fyrir miðju borði,  umkringdir flokksfélögum sínum á tyrkneska þinginu í dag.
Erdogan og Gul sjást hér sitja fyrir miðju borði, umkringdir flokksfélögum sínum á tyrkneska þinginu í dag. MYND/AFP

Herinn í Tyrklandi sendi í kvöld frá sér yfirlýsingu um að hann fylgdist vel með forsetakosningum þar í landi. Herinn sagðist hafa áhyggjur af stöðu mála eftir að fyrsta umferð kosninganna leiddi til pattstöðu á milli stjórnarflokka og stjórnarandstöðu. Tyrkneska þingið kýs forseta landsins.

Herinn telur að ef svo verði sé líklegt að stjórnin reyni að breyta um stefnu og nota trúarkenningar íslam sem grundvöll í stjórnkerfi landsins. Yfirlýsingin var óvenju harðorð. Í henni sagði að herinn væri verndari stjórnkerfisins. Flestir í hernum vilja ekki að trúarkenningar ráði stjórnkerfi landsins og að trú og stjórnmál séu aðskilin.

Stjórnarandstaðan hefur þegar áfrýjað kosningunum þar sem hún segir að ekki hafi verið nógu margir þingmenn til þess að staðfesta úrslit kosninganna. Alls vantaði tíu atkvæði upp á að tveir þriðju hlutar þingmanna hefðu greitt atkvæði.

Ef áfrýjunardómstóll fellst á kröfu stjórnarandstöðunnar verður Tayyip Erdogan, forsætisráðherra landsins, lögum samkvæmt að boða til almennra kosninga.

Ef að dómstóllinn hafnar henni er talið að frambjóðandi stjórnarinnar, Abdullah Gul, verði kosinn forseti í þriðju umferð kosninganna, en í þeim þarf frambjóðandi ekki að ná tveimur þriðju hlutum atkvæða til þess að hljóta kosningu.

Forseti Tyrklands hefur ekki jafn mikil völd og forsætisráðherrann en embættið hefur engu að síður mikla þýðingu í augum Tyrkja. Embætti forseta hefur ætíð verið í höndum þeirra sem hlynntir eru aðskilnaði trúmála og stjórnmála. Forsetinn hefur þó neitunarvald og beitti síðasti forseti því oft gegn lagasetningum frá íslamistum en þeir eru í meirihluta á þinginu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×