Erlent

Markmiðið að tryggja sameiginlega hagsmuni

Markmið samninga Íslendinga við Dani og Norðmenn um öryggis- og varnarmál, sem undirritaðir voru í Ósló í gær, er að tryggja sameiginlega hagsmuni landanna í Norður-Atlantshafi. Auknu eftirliti með skipaferðum er ætlað að forða slysum við flutning á olíu og gasi.

Samkomulagið við Norðmenn og viljayfirlýsingin við Dani voru undirrituð í Ósló í Noregi í gær en þar stendur nú óformlegur fundur utanríkisráðherra Atlantshafsbandalagsríkjanna. Með þessu er eftirlit bæði á láði og legi aukið.

Valgerður Sverrisdóttir, utanríkisráðherra, segir ljóst að með hlýnun loftslags verði meiri umferð á hafinu meðal annars frá hendi Norðmanna og Rússa í olíu- og gasflutningum. Þessir flutningar fari nærri Íslandi og því mikilvægt fyrir Íslendinga að eiga þetta samstarf svo forða megi slysum vegna flutninganna.

Samskipti ríkjanna á sviði öryggis- og varnarmála eru aukin og funda embættismenn ríkjanna þriggja á hálfs árs fresti um þau mál sem brenna á þeim.

Norðmenn og Danir leggja sitt af mörkum til þjálfunar og menntunar íslensks starfsliðs. Samið verður nánar um það í hverju tilviki. Í samkomulaginu við Norðmenn er sérstaklega tiltekið að haldið verði áfram með námskeið fyrir Íslendinga í upplýsingaöflun og um öryggismál.

Samstarf Íslendinga og Dana í almannavarnarmálum verður eflt og lögð drög að samkomulagi við Norðmenn í þessum málaflokki, meðal annars tengt kaupum á björgunarþyrlum.

Enn verða skipti á trúnaðarupplýsingum milli landanna en samkvæmt samningunum verður öllum reglum og lögum fylgt í þeim efnum til að tryggja að þær rati ekki í hendur þriðja aðila.

Grétar Már Sigurðsson, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins var í hádegisviðtali Stöðvar 2 um samningana.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×