Innlent

Dæmdur fyrir að stinga mann í handlegginn

Héraðsdómur Suðurlands dæmdi í dag karlmann í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir að hafa stungið mann í handlegginn með hnífi. Atvikið átti sér stað í heimahúsi í Vestmannaeyjum þar sem nokkrir menn sátu að sumbli.

Til deilna kom milli manna vegna áfengis og sótti ákærði hníf inn í eldhús. Vildi sá sem fyrir árásinni varð stöðva hann og sneri hann niður en þá fékk hann hnífinn í handlegginn þannig að sauma þurfti alls tíu spor.

Dómurinn telur ekki sannað hver hafi haldið um hnífinn þegar hann stakkst í manninn og sömuleiðis er talið ósannað að fyrir ákærða hafi beinlínis vakað að valda tjóni með háttsemi sinni. Hins vegar telur dómurinn að manninum hljóti að hafa verið ljóst að með því að halda hnífi í brjósthæð í sömu andrá og stefndi í átök væri langlíklegast að tjón hlytist af. Var hann því sakfelldur í málinu.

Með árásinni rauf maðurinn skilorð og var tekið tillit til þess við ákvörðun refsingar. Þá þótti rétt að líta til þess að afleiðingar verknaðarins voru ekki alvarlegar en dómurinn sagði þó að ekki yrði fram hjá því litið að hending ein virtist hafa ráðið að ekki fór verr. Var hann því dæmdur til þriggja mánaða fangelsis sem skilorðsbundið er til þriggja ára.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×