Erlent

Hvíta húsið harmar ákvörðun Írana

Jónas Haraldsson skrifar
George W. Bush, forseti Bandaríkjanna.
George W. Bush, forseti Bandaríkjanna. MYND/AFP

Hvíta húsið hefur lýst yfir áhyggjum vegna yfirlýsinga Írana í dag um að þeir hafi hafið framleiðslu á auðguðu úrani í iðnaðarmagni. „Við höfum miklar áhyggjur af tilkynningu Írana." sagði Gordon Johndroe, talsmaður öryggisráðs Hvíta hússins. „Íranar halda áfram að ögra alþjóðasamfélaginu og einangra sig enn frekar með því að auka við kjarnorkuáætlun sína frekar en að draga úr henni."

Mahmoud Ahmadinejad, forseti Írans, skýrði frá þessari ákvörðun í ræðu sem hann hélt á fréttamannafundi í dag. Þá var sagt frá því að þeir hefðu hafið auðgun úrans í 3.000 skilvindum en með þeim tekur Írana aðeins eitt ár að framleiða nóg úran til þess að nota í kjarnorkusprengju. Íranar hafa þó ávallt neitað þeim ásökunum vesturveldanna um að þeir ætli sér að koma upp kjarnorkuvopnum og segjast aðeins ætla að nýta kjarnorkuna til þess að framleiða rafmagn.

Einnig sögðu þeir að ef þeir þyrftu að sæta frekari þrýstingi af hálfu alþjóðasamfélagsins myndu þeir hugsanlega segja sig úr samningnum um takmörkun á útbreiðslu kjarnorkuvopna (NPT) og hætta samstarfi við Alþjóðakjarnorkumálastofnunina (IEAE).




Fleiri fréttir

Sjá meira


×