Erlent

Miskunsamir Rússar

Óli Tynes skrifar
Vondir nágrannar hafa ekkert að gera til Moskvu.
Vondir nágrannar hafa ekkert að gera til Moskvu.

Rússar gera um páskana lítillega undanþágu á flugbanni sínu á nágrannaríkið Georgíu. Þrem flugvélum er leyft að fljúga á milli Tblisi og Moskvu. Farþegarnir eru Georgíumenn sem fá að heimsækja ættingja sína í Rússlandi. Rússar settu flugbann á Georgíu fyrir sex mánuðum, eftir að þrír Rússar voru handteknir þar í landi, sakaðir um njósnir.

Rússunum var snarlega skilað til Sameinuðu þjóðanna, og þaðan heim. En rússneskum stjórnvöldum var ekki skemmt. Þau lokuðu landamærum ríkjanna og hafa ekki opnað þau aftur.

Einu flugsamgöngur milli landanna hafa verið flug með Georgíumenn sem hafa verið gerðir brottrækir frá Rússlandi, af ýmsum ástæðum.

Georgíumenn segja að Rússar séu að refsa þeim fyrir að vilja taka upp vestrænt lýðræði og ganga í NATO.

Rússar segja aftur á móti að Georgíumenn séu vondir nágrannar. Þeir segja að páskaflugið hafi verið leyft af mannúðarástæðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×