Erlent

Sjóliðarnir komnir heim til Bretlands

Bresku sjóliðarnir fimmtán, sem verið hafa í haldi Írana í nærri tvær vikur, komu heim til Bretlands nú fyrir hádegi. Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, fagnaði því að sjóliðarnir væru komnir aftur heim öryggir og ómeiddir.

Sjóliðarnir flugu frá Tehran höfuðborg Írans með British Airways um klukkan fimm í morgun að íslenskum tíma. Fagnaðarlæti brutust út á meðal þeirra þegar flugvélin fór í loftið og var skálað í kampavín. Sky-fréttastofan greindi frá því að viðskiptamannafarrými flugvélarinnar hafi verið rýmt til að koma sjóliðunum þar fyrir. Þurftu þeir sem þar áttu að sitja að flytja sig yfir á almennt farrými, við mismikla ánægju, enda áttu íranskir viðskiptamenn þar meðal annars sæti.

Um borð í flugvélinni fengu sjóliðarnir dagblöð til að lesa en blöðin voru öll að minnsta kosti sólarhrings gömul, svo þar lásu þeir um vangaveltur fjölmiðla um hvernig leysa ætti þá milliríkjadeilu sem upp væri komin, og prísað sig sæla að deilan væri leyst .

Sjóðliðarnir voru handteknir fyrir meint landhelgisbrot og vildu stjórnvöld í Íran að bresk stjórnvöld viðurkenndu að hafa ráðist inn í íranska lögsögu. Bretar neituðu því. Forseti Írana, Mahmoud Ahmadinejad, tilkynnti svo í gær á blaðamannafundi að hann hefði náðað sjóliðana og sagði ákvörðunina gjöf til Bretlands.

Tony Blair forsætisráðherra Breta, fangaði heimkomu sjóliðanna og ítrekaði áskanir sínar um að stjórnvöld í Íran styddu hryðjuverkamenn í Írak.

Tvær herþyrlur flugu á móti flugvél British Airways og lentu með henni á Heathrow flugvellinum í London. Þaðan héldu þær áfram til Devon í suðvesturhluta Bretlands með sjóliðana fimmtán.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×