Erlent

Yushchenko boðar til kosninga

Forseti Úkraínu, Viktor Yushchenko.
Forseti Úkraínu, Viktor Yushchenko. MYND/AFP
Forseti Úkraínu, Viktor Yushchenko, leysti upp þingið í landinu og boðaði til kosninga með því að birta tilskipun um það í stjórnartíðindum Úkraínu í morgun. Þingið hafði áður hótað að virða ákvörðun forsetans að vettugi.

Yuschcenko, sem er hlynntur samstarfi við vesturlönd, tilkynnti um ákvörðun sína eftir langa valdabaráttu við forsætisráðherra landsins, Viktor Yanukovych, sem er hlynntur samstarfi við Rússland. Stjórnmálaskýrendur telja að ákvörðunin gæti aukið á óróleika í landinu en stuðningsmenn beggja manna hafa fjölmennt á útifundi undanfarna daga.

Kosningarnar eiga að fara fram 27. maí næstkomandi. Yushchenko segir að forsætisráðherrann Yanukovych hafi beitt ólöglegum aðferðum til þess að lokka stjórnarþingmenn yfir til stjórnarandstöðunnar. Samkvæmt lögum í Úkraínu mega einstakir þingmenn ekki skipta um lið á þann hátt, heldur aðeins flokkar. Yushchenko segir því að til þess að vernda stjórnarskrá og fullveldi landsins hafi hann orðið að rjúfa þing og boða til kosninga.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×