Erlent

Sönn ást spyr ekki um útlit

Jónas Haraldsson skrifar
Petra sést hér skýla sér við ástmann sinn, hjólabátinn.
Petra sést hér skýla sér við ástmann sinn, hjólabátinn. MYND/AFP

Ein fallegasta ástarsaga síðari tíma hélt áfram í vikunni. Svanurinn Petra, sem er sjaldgæfur svartur svanur, yfirgaf vetrardvalarstað sinn ásamt elskhuga sínum og synda þau nú bæði um tjörnina í Muenster í norðvesturhluta Þýskalands. Svanir velja sér maka til lífstíðar og því var það falleg stund þegar Petra synti aftur við hlið ástar sinnar, hjólabáts sem er í laginu eins og svanur.

Petra og hjólabáturinn felldu hugi saman síðasta sumar. Þegar hinir svanirnir hófu sig suður á bóginn fyrir veturinn var Petra eftir ásamt ófleygum elskhuga sínum. Starfsmenn dýragarðs í nágrenninu sáu aumur á hinu óvenjulega pari og leyfðu því að dveljast saman í dýragarðinum yfir vetrartímann. Í vikunni sem leið fengu þau svo að snúa aftur á slóðirnar þar sem þau hittust fyrst og svo virðist sem ástin hafi ekkert dofnað.

Hjólabáturinn er enn leigður út til ferðamanna sem vilja fá sér bunu á tjörninni og hafa elskendurnir orðið víðfrægir. Joerg Adler, forstöðumaður dýragarðsins, segir að Petra gæti allt eins elt ástina sína það sem eftir er. „Þetta samband gæti enst heila eilífð því Petru finnst augljóslega að hún hafi þarna fundið sér maka fyrir lífstíð."

Fréttavefurinn Ananova skýrði frá þessu.  




Fleiri fréttir

Sjá meira


×