Erlent

Mugabe býður sig fram 2008

Robert Mugabe, forseti Zimbabwe.
Robert Mugabe, forseti Zimbabwe. MYND/AFP

ZANU-PF, stjórnarflokkurinn í Zimbabwe hefur samþykkt að halda forsetakosningar í landinu árið 2008. Robert Mugabe, núverandi forseti landsins, var þá valinn frambjóðandi flokksins. Starfsmaður flokksins skýrði frá þessu í dag. Robert Mugabe er 83 ára gamall og verður kjörtímabilið því stytt úr sex árum í fimm. Mugabe gæti því gegnt embætti, ef heilsan endist, til 88 ára aldurs. Hann hefur átt undir högg að sækja vegna einræðislegra tilburða og samskipta sinna við stjórnarandstöðu landsins.

Hingað til hefur hann látið handtaka stjórnarandstöðuleiðtoga, látið berja þá og sagt þá eiga það skilið fyrir að ætla að halda mótmæli. Talið er að um 80% atvinnuleysi sé í landinu og verðbólga rúmlega 1.700%.

Mikil óánægja er í landinu og hefur ástandið verið ótryggt. Thabo Mbeki, forseti Suður-Afríku, hefur verið skipaður sérstakur sáttasemjari í málefnum Zimbabwe. Hann hefur hingað til ekki gagnrýnt Mugabe að ráði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×