Erlent

Hét á páfa og læknaðist

Frönsk nunna sem læknaðist af Parkinsons-veiki eftir að hafa heitið á Jóhannes Pál páfa annan er höfuðástæða þess að honum verður veitt sérstök blessun á tveggja ára ártíð sinni í næstu viku. Komi annað kraftaverk í ljós verður hann tekinn í dýrlingatölu.

Á mánudaginn verður þess minnst að tvö ár eru liðin frá því að Jóhannes Páll páfi annar andaðist og við það tækifæri á að taka hann í helgra manna tölu. Í dag héldu prelátar Páfagarðs blaðamannafund þar sem þeir kynntu þau gögn sem liggja til grundvallar ákvörðuninni um að veita páfanum sáluga þessa sérstöku blessun en slíkur gerningur krefst mjög nákvæmrar rannsóknar. Þyngst vegur vitnisburður franskrar nunnu sem var illa þjáð af Parkinsons-veiki. Hún hét á páfa, sem var þá nýlátinn, að lækna sig. Örskömmu síðar hvarf henni sóttin.

Á pálmasunnudag verður greint frá því í hvaða biskupsdæmi nunnan á heima en ekki verður þó sagt frá nafni hennar. Komi annað kraftaverk í ljós verður hægt að taka páfa í dýrlingatölu. 10.000 manns hefur í gegnum tíðina hlotnast sá heiður, þar á meðal Þorláki helga Skálholtsbiskupi. Á hann hafa margir heitið með góðum árangri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×