Erlent

Berlínarályktun undirrituð

Leiðtogar Evrópusambandsríkjanna samþykktu í dag ályktun um að endurbætur verði gerðar á stofnanakerfi ESB innan tveggja ára. Hálf öld er í dag frá undirritun Rómarsáttmálans og var þeim tímamótum fagnað í Berlín.

Það var 25. mars árið 1957 sem leiðtogar Belgíu, Frakklands, Hollands, Ítalíu, Lúxembúrgar og Vestur-Þýskalands undrrituðu Rómarsáttmálann og stofnuðu þar með Efnahagsbandalag Evrópu, forvera Evrópusambandsins. Þjóðverjar eru í forsvari fyrir Evrópusambandið um þessar mundir og því var þessum merku tímamótum fagnað í Berlín.

Leiðtogar bandalagsríkjanna undirrituðu yfirlýsingu sem kennd er við borgina og ætlað er að leysa það þrátefli sem komið er upp í umræðunni um stjórnarskrá ESB. Frakkar og Hollendingar höfnuðu henni í þjóðaratkvæðagreiðslum 2005 og var þá málsmeðferð frestað í mörgum aðildarríkja.

Anglea Merkel, kanslari Þýskalands, segir mikilvægt að leysa málið fyrr en síðar. Hún segir vilja til að taka ákvörðun í júní. Þá þurfi að liggja fyrir skýr áætlun sem marki stefnu án þess að skilgreina niðurstöðu. Þetta þurfi að ákveða á ráðstefnu ráðamanna. Hún segir ljóst að málið verði aldrei leyst ef alltaf eigi að fresta umræðu um það. Það þurfi að ákveða hvað eigi að gera og hvaða ríki eigi að gera hvað. Merkel telur ESB í dag ekki þannig skipað að hægt sé að grípa til aðgerða á vettvangi þess.

Hátíðarhöld eru fyrirhuguð í Berlín í kvöld vegna tímamótanna en ekki voru þó allir á þeim buxunum að fagna í dag. Um þúsund manns tóku þátt í mótmælum gegn ESB í borginni í dag. Þátttakendur voru vinstri menn víða að úr Evrópu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×