Erlent

Ógnað með byssum og síðan rænt

Liðsmenn íranska byltingarhersins tóku í dag höndum 15 breska sjó- og landgönguliða sem voru við eftirlit í íraskri landhelgi. Þeim var ógnað með skotvopnum en ekki kom til átaka.

Íranska sjónvarpið staðfesti skömmu eftir hádegi í dag að mennirnir hefðu verið teknir höndum í morgun þar sem þeir höfðu farið um borð í skip í Persaflóa en grunur lék á að verið væri að smygla bílum með því. Þeim hafði verið falið að gæta olíuflutningaleið Íraka í suðri með Shatt al-Arab siglingaleiðinni sem myndar landamæri milli Írans og Íraks. Þeim var einnig falið að framfylgja ályktunum öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna hvað Íraka og landhelgi þeirra varðar.

Að sögn breska varnarmálaráðuneytisins var bresku sjóliðunum ógnað með skotvopnum en ekki kom til átaka. Íranski sendiherrann í Lundúnum var kallaður til fundar í breska utanríkisráðuneytinu síðdegis og þess krafist að sjóliðarnir yrðu þegar látnir lausir.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Íranar taka breska sjó- og landgönguliða höndum. Það gerðist síðast í júní 2004 á Shatt al-Arab siglingaleiðinni. Þeir voru átta og allir sýndir í írönsku sjónvarpi með bundið fyrir augun þar sem þeir viðurkenndu að hafa siglt inn í íranska landhelgi án leyfis. Þeim var sleppt ómeiddum þrem dögum síðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×