Erlent

Gore gagnrýndur fyrir eigin orkunotkun.

Gore skoraði á þingheim að grípa til aðgerða.
Gore skoraði á þingheim að grípa til aðgerða. MYND/AP

Al Gore, fyrrverandi varaforseti Bandaríkjanna, skoraði í gær á Bandaríkjaþing að grípa til aðgerða gegn hlýnun jarðar sem allra fyrst. Þingmenn gagnrýndu Gore á móti fyrir eigin orkunotkun.

Eftir nokkur mögur ár hefur frægðarsól Als Gore risið nokkuð hratt á undanförnum misserum, ekki síst vegna kvikmyndar hans um loftslagsmál "Óþægilegur sannleikur" sem á dögunum hreppti tvenn Óskarsverðlaun. Gore hefur ekki komið fyrir þingið frá því 2000, árið sem hann tapaði í forsetakosningunum fyrir George Bush, og því sagði hann að um tilfinningaþrungna stund væri að ræða fyrir sig. Í erindi sínu sem hann flutti þingnefndum beggja deilda skoraði hann á þingmenn að beita sér fyrir því að þak yrði sett á losun gróðuhúsalofttegunda í Bandaríkjunum, fyrirtæki yrðu skylduð til að greina sérstaklega frá hversu mikið þau menguðu og að Bandaríkin yrðu leiðandi í gerð nýs sáttmála sem leysa myndi Kyoto-bókunina af hólmi. Máli sínu til stuðnings benti Gore á 500.000 bréf sem hann var með í farteskinu frá fólki sem skoraði á þingið að grípa til aðgerða. Þingmenn tóku hins vegar mátulega vel í tillögur varaforsetans fyrrverandi. Sumir drógu í efa kenningar um að hlýnun jarðar væri af mannavöldum, aðrir sögðu Gore að líta sér nær og draga úr eigin orkunotkun. Enginn er víst spámaður í eigin föðurlandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×