Erlent

Létu háttsettan uppreisnarmann lausan

Einn liðsmanna Mehdi hersins fylgist með eftir að sprengja springur í Najaf í Írak.
Einn liðsmanna Mehdi hersins fylgist með eftir að sprengja springur í Najaf í Írak. MYND/AP

Bandaríski herinn þurfti að láta lausan einn helsta aðstoðarmann sjía klerksins Moqtada al-Sadr að beiðni forsætisráðherra Íraks, Nuri al-Maliki. Ahmed Shibani, sem hafði verið í haldi Bandaríkjamanna í meira en tvö ár, var háttsettur aðstoðarmaður al-Sadr. Al-Sadr er óvinveittur Bandaríkjunum og er leiðtogi Mehdi hersins sem Bandaríkjamenn hafa sagt helstu ógnina við öryggi í Írak.

Líklegt er að al-Maliki hafi verið að afla sér fylgis á meðal sjía múslima í Írak en hann fær marga stuðningsmenn úr röðum al-Sadr. Bandaríkjamenn gáfu frá sér yfirlýsingu í kvöld þar sem þeir sögðu að eftir viðræður við al-Maliki hefðu þeir gert sér grein fyrir að Shibani gæti hjálpað til við að koma á öryggi og stöðugleika í hinu stríðshrjáða landi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×