Erlent

Gáfu út 10.000 vegabréf til svikahrappa

Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands.
Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands. MYND/AP
Þúsundum manna, og þar á meðal tveimur sem dæmdir hafa verið fyrir hryðjuverkaárásir, tókst að verða sér út um vegabréf hjá breska innanríkisráðuneytinu á fölskum forsendum á síðastliðnu ári. Allt í allt er talið að um tíu þúsund vegabréf sé um að ræða.

Breska innanríkisráðuneytið viðurkenndi þetta í dag en sagði jafnframt að brátt myndi það byrja á viðtölum við umsækjendur til þess að koma í veg fyrir að svona nokkuð kæmi fyrir.

Hryðjuverkamennirnir tveir, sem urðu sér úti um vegabréf án vandkvæða, voru annars vegar dæmdir fyrir sprengjuárás í Marokkó og hins vegar fyrir að hafa ætlað að sprengja gat á neðanjarðarlestakerfið í Lundúnum.

Breska ríkisstjórnin segir að þetta staðfesti þörfina á því að ný einkennisspjöld, sem innihalda meðal annars lífsýni, verði tekin í gagnið. Stjórnarandstæðingar benda hins vegar á að þeir sem nú þegar hafi fengið vegabréf á fölskum forsendum geti nýtt sér þau til þess að fá hin nýju einkennisspjöld á löglegan hátt.

Talið er að allt að um 16.500 manns hafi sótt um vegabréf á fölskum forsendum á síðasta ári og að um 10.000 þeirra hafi fengið vegabréf. Breska innanríkisráðuneytið gefur árlega út 6,6 milljónir vegabréfa.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×