Erlent

Segir demókrötum að taka tilboðinu

MYND/AFP
George W. Bush, forseti Bandaríkjanna, sagði í kvöld að demókratar ættu að taka tilboði hans um að leyfa tveimur háttsettum aðstoðarmönnum hans að ræða við þingnefnd á þeirra vegum. Bush hefur neitað því að leyfa demókrötum að yfirheyra aðstoðarmenn sína eiðsvarna. Aðstoðarmennirnir sem um ræðir eru Karl Rove og Harriet Miers.

Demókratar vilja yfirheyra aðstoðarmennina til þess að grennslast fyrir um hvers vegna átta alríkisdómarar voru reknir fyrir stuttu. Gagnrýnendur segja að einhver í Hvíta húsinu hafi eitthvað gruggugt í pokahorninu.

Bush sagði í yfirlýsingu í dag að Hvíta húsið tæki ekki þátt í pólitískum nornaveiðum. „Við munum ekki taka þátt í pólitískum nornaveiðum sem miða að því að sverta orðstír heiðvirðra starfsmanna ríkisins. Ég hef lagt til leið til þess að leysa málin." sagði í yfirlýsingunni. „Engin merki eru um að einhver hafi gert eitthvað af sér." sagði Bush síðan að lokum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×