Erlent

Þriðjungur írösku lögreglunnar spilltur

Háttsettur lögregluforingi í írösku lögreglunni sagði í dag að hann gæti ekki treyst þriðjungi lögreglumanna sinna þar sem hollusta þeirra væri hjá ólöglegum vígahópum. Lögregluforinginn, Abdul Hussein Al Saffe, sagði enn fremur að hann gæti ekki rekið þá þar sem þeir nytu verndar stjórnmálamanna.

Annar lögreglustjóri á svæðinu, Ghalib al Jaza'aere, sagði að hann hefði verið neyddur til þess að ráða þrjú til fjögur hundruð lögreglumenn sem kunnu ekki einu sinni að lesa. Ghalib skýrði frá því að einn lögregluþjónanna hefði verið rekinn fyrir að smygla vopnum til uppreisnarhópa sem berjast gegn breska hernum á svæðinu. Hann hefði síðan verið ráðinn á ný og hækkaður í tign af embættismönnum í Bagdad.

Lögregluforingjarnir vinna í einu þeirra umdæma sem Bretar eru að afhenda íröskum yfirvöldum um þessar mundir. Breski herforinginn Jonathan Shaw segir að þrátt fyrir þetta sé umdæmið, Dhi Qhar, eitt af þeim betri á svæðinu og að vel hafi gengið að stilla til friðar í því.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×