Erlent

Lentu í deilum við konu á Hebron

Íslenskur karlmaður um tvítugt var færður til yfirheyrslu hjá ísrelsku lögreglunni í Hebron á Vesturbakkanum í fyrradag. Ísraelsk kona sem þau lentu í útistöðu við hafði þá kært danska vinkonu hans fyrir líkamsárás. Atvikið náðist allt á myndband.

Haukur Hilmarsson er tvítugur. Hann sinnir mannúðarstarfi í Hebron. Hann var á gangi með danskri vinkonu sinni þegar þau veittu því athygli að unglingar úr hópi ísraelskra landnema veittust að tveimur palestínskum strákum og hugðust grýta þá. Haukur byrjaði að mynda atburðina og vinkona hans skarst í leikinn. Hermenn í næsta nágrenni komu í veg fyrir átök.

Það var þá sem ísraelsk kona skarst í leikinn. Hún fór að mynda Hauk og vinkonu hans og meinaði henni för. Hún hrópaði að þeim ókvæðis orð á Hebresku, sagði þau nasista og að þau ættu að fara aftur til Auswitchz. Haukur segir konuna hafa viljað að þau hættu að mynda. Hann segir árásir landnema á Palestínumenn algengar í Hebron og Ísraelar vilji ekki að þær séu festar á filmu.

Að lokum óskaði ísraelska lögreglan að Hauks og vinkona hans kæmu til skýrslutöku á lögreglustöð sem þau samþykktu. Þar máttu þau vera í fjórar klukkustundir en skýrslutakan sjálf tók aðeins um hálftíma.

Konan hefur kært vinkonu Hauks fyrir líkamsárás. Haukur á ekki von á því að málið gegn vinkonu hans fari lengra í kerfinu. Myndband sitt sýni að ekki hafi verið um líkamsárás að ræða. Hann býst við því að málið verði látið niður falla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×