Erlent

Þingkosningar í Finnlandi í dag

Kosið er til þings í Finnlandi í dag. Búist er við að mið- og vinstristjórn Matti Vanhanen, forsætisráðherra, haldi velli en svo gæti þó farið að einhverjar hrókeringar yrðu.

Kjörstaðir voru opnaðir klukkan sjö í morgun að íslenskum tíma og verður lokað klukkan sex síðdegis. Búist er við fyrstu tölum þá og endanlegum úrslitum seint í kvöld. Fjórar komma þrjár milljónir Finna eru á kjörskrá og hefur tæpur þriðjungur þeirra þegar greitt atkvæði utan kjörfundar.

Helst hefur verið tekist á um heilbrigðismál, hag eldri borgara, skattalækkanir og atvinnumál í aðdraganda kosninganna.

Miðflokki Vanhanens er spáð nærri því fjórðungi atkvæða. Þakka kjósendur stjórninni, og ekki síst miðflokknum og Vanhanen, gott ástand efnahagsmála. En þó stjórnarsamstarfið hafi reynst farsælt að margra mati gæti farið svo að Vanhanen veldi sér annan flokk í ríkisstjórn fari sem horfir. Hægrimenn hafa bætt við sig fylgi í könnunum og telja margir miðflokksmenn þá jafnvel álitlegri kost til samstarfs en jafnaðarmenn.

Stjórnmálaskýrendur segja þann möguleika þó fyrir hendi að jafnaðarmenn og hægriflokkurinn myndi stjórn þrátt fyrir að miðflokkurinn fái það fylgi sem er spáð. Það yrði ekki óvenjulegt stjórnarsamstarf því flokkarnir hafa áður verið saman í ríkisstjórn.

Eero Heinaluoma, fjármálaráðherra og leiðtogi jafnaðarmanna, gæti einnig gert kröfu um forsætisráðherraembættið ef ákveðið verður að halda stjórnarsamstarfinu áfram en óvíst er að það fengist í gegn þar sem vinsældir Vanhanens í embætti hafa vaxið síðustu vikur og mánuði að sögn finnskra miðla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×