Erlent

Fimm landa heimsókninni senn lokið

George Bush forseti Bandaríkjanna og Hugo Chavez forseti Venesúela ferðast þessa dagana um Suður-Ameríku til að styrkja tengslin við bandamenn sína. Vart þarf að taka fram að þeir ferðast hvor í sínu lagi enda svarnir óvinir.

Bush hefur verið á ferðalagi ásamt fylgdarliði sínu um Rómönsku Ameríku undanfarna daga og í morgun kom hann til Úrúgvæ, síðasta landsins sem heimsótt verður í ferðinni. Enginn hörgull var fólki í höfuðstaðnum Montevídeó til að mótmæla komu hans, meðal annars skeytu mótmælendur skapi sínu á veitingastöðum McDonalds í borginni. Bush hefur aftur á móti fengið heldur skárri viðtökur hjá þeim þjóðarleiðtogum sem hann hefur sótt heim. Við Tabare Vazquez, forseta Úrugvæ ræddi hann í dag um fríverslun og þeir Lula da Silva, forseta Brasilíu gerðu í gær samkomulag um framleiðslu á etanóli, orkugjafa sem vonast er til að leyst geti olíuna af hólmi þegar fram líða stundir. Í Sao Paulo brá svo Bush sér á samba-klúbb ásamt Condoleezzu Rice utanríkisráðherra og eiginkonu sinni Láru og þar virtist stuðið í fyrirrúmi.

Á sama tíma sótti Hugo Chavez, forseti Venesúela Argentínumenn heim. Ferðalag Chavez er að hans sögn í engum tengslum við reisu Bush enda þótt flestar ræðurnar fjalli á einn eða annan hátt um þennan erkifjanda hans. Í einni þeirra fulltyrti hann meðal annars að Bush hefði lægri greindarvísitölu en aðrir Bandaríkjaforsetar til þessa.

Tuttugu þúsund manns fögnuðu þessum fúkyrðum Chavez ákaft sem klykkti út með að segja að Bush væri pólitískt lík og kúgunartákn heimsvaldasinna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×