Erlent

Friðsöm mótmæli í dag

Þúsundir manna gengu fylktu liði um götur Kaupmannahafnar í dag til að mótmæla niðurrifi Ungdómshússins á Norðurbrú í vikunni. Mannréttindasamtökin Amnesty International hafa krafist rannsóknar á framgöngu lögreglunnar í garð mótmælenda um síðustu helgi.

Þótt Ungdomshuset á Norðurbrú hafi verið rifið í síðustu viku er deilunum um það hvergi nærri lokið. Í gærkvöld söfnuðust hátt í þúsund manns saman á lóð þess á Jagvej 69. Varðeldar voru kveiktir, tónlist leikin og veggjakrotarar sprautuðu úr brúsum sínum á nálægar byggingar. Þegar tó að líða á nóttina færðist meiri harka í samkomuna, flöskum var kastað að lögreglumönnum sem brugðust við með því að handtaka 37 mótmælendur og færa í fangageymslur.

Mikill viðbúnaður var svo í Kaupmannahöfn í dag vegna boðaðra mótmæla en þau hafa enn sem komið er farið friðsamlega fram. Nú síðdegis fylktu um þrjú þúsund manns liði frá Ráðhústorginu yfir á Norðurbrú og kröfðust nýs ungdómshúss.

Nú er rúm vika liðin frá því að lögregla rýmdi Ungdomshuset og allt logaði í óeirðum í hverfinu í kjölfarið. Mannréttindasamtökin Amnesty International hafa krafist rannsóknar á framgöngu lögreglunnar sem þau segja hafa gengið allt of harkalega fram gegn mótmælendum. Talsmaður þeirra segir allt of marga hafa verið handtekna og samtökunum hafi borist fjölmargar kvartanir vegna fautaskapar lögregluþjóna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×