Erlent

Paisley sigraði

Sambandsflokkur Ian Paisleys er sigurvegari kosninganna á Norður-Írlandi. Flokkurinn hlaut 36 af 108 þingsætum en Sinn Fein fékk 28. Næstur var Sameiningarflokkur Ulsters með 18 sæti.

Tvo daga tók að telja atkvæði eftir kosningar til héraðsþingsins á Norður-Írlandi sem fram fóru á miðvikudag. Bresk yfirvöld hafa hótað því að hinu nýkjörna þingi verði lokað og London taki við ef flokkarnir hafa ekki náð að mynda stjórn þann 26. mars. Eftir síðustu kosningar hafði þingið ekki setið í sólarhring þegar allt fór í háaloft. Ætlast er til að þingið komi sér saman um samsteypustjórn fjögurra stærstu flokkanna. Ef það tekst myndi Sambandsflokkur Paisleys fá fjóra ráðherra, Sinn Fein þrjá og minni flokkarnir þrjá.

Leiðtogi Sinn Fein, Gerry Adams, hefur sagst reiðubúinn til samstarfs. Ian Paisley, leiðtogi sambandssinna, útilokar ekki samvinnu en leggur áherslu á að fyrst þurfi hann að sannfærast um friðvarvilja Sinn Fein. Forsætisráðherra Írlands, Bertie Ahern, sagði í dag að þetta væri líklega í fyrsta sinn í samtímanum sem kosningar á Norður-Írlandi snúist um efnahagsmál, menntun og heilbrigðismál. Fyrr í dag sendu þeir Ahern og Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, frá sér sameiginlega yfirlýsingu um að kjósendur hefðu sent skýr skilaboð um að þeir vildu endurreisa heimastjórnina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×