Körfubolti

Grindavík vann Keflavík 116 - 99

Grindvíkingar sigruðu Keflvíkinga í suðurnesjaslag í Iceland Express deildinni í körfuknattleik í kvöld, 116 - 99. Leikurinn fór fram í Grindavík. Keflvíkingar byrjuðu leikinn betur en eftir fyrsta leikhluta tóku Grindvíkingar við sér og voru brátt skrefi á undan Keflavík og voru það það sem eftir lifði leiks.

Keflvíkingar komust þó ávallt nálægt því að jafna metin eftir að Grindvíkingar höfðu aukið muninn. Í hálfleik var staðan 63 - 58 heimamönnum í vil. Í fjórða leikhluta fóru Grindvíkingar síðan að spila betri vörn og sigu að lokum fram úr.

Að sögn Friðriks Inga Rúnarssonar, framkvæmdastjóra KKÍ, sem var á leiknum, var leikurinn skemmtilegur á að horfa. „Það er alltaf mikið um sóknar bolta þegar þessi lið mætast, þau vilja gjarnan spila hratt og skjóta mikið fyrir utan og því var mikið skor í þessum leik. Grindvíkingar voru vel komnir að sigrinum. Keflvíkingar voru að spila án Bandaríkjamanns í kvöld og það getur verið að það hafi haft áhrif.“ sagði hann í samtali við Vísi.

Friðrik Ragnarsson, þjálfari Grindavíkur, sagði í samtali við Vísi eftir leikinn að hann hefði verið ánægður með alla sína menn. „Það voru margir sem spiluðu vel og við rúlluðum á öllum þeim mönnum sem við höfðum. Liðið var líka léttara og hraðara nú þar sem Calvin Clemmons er farinn. Leikurinn var skemmtilegur á að horfa, hraður og mikið skor. Það sem gerði síðan gæfumuninn var að við náðum að loka á þá í vörninni í fjórða leikhluta.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×