Erlent

Silikonblandað bensín veldur vanda á Bretlandi

Bílar mörg þúsund breskra ökumanna hafa bilað síðustu daga vegna silikonblandaðs bensíns sem þeir hafa dælt á þá. Viðskiptaskrifstofa Bretlands rannsakar málið.

Ökumennirnir dæslu flestir bensíni á bíla sína á bensínstöðvum nærri stórmörkuðum á borð við Tesco og Morrisons í suð-austur hluta landsins. Bensíntankar við verslanirnar hafa þegar verið tæmdir og fylltir af bensíni sem hefur verið efnagreint. Dælurnar verða þó ekki í notkun fyrr en eftir helgi.

Fyrirtækið Greenergy útvegaði verslununum eldsneyti og hefur látið rannsaka það. Sú athugun leiddi í ljós silikonmengun í blýlausu bensíni.

Silikón er notað í díselolíu til að koma í veg fyrir að froða myndist. Það veldur hins vegar töluverðum vandræðum í bensínvélum.

Sérfræðingur hjá Konunglega efnafræðifélaginu breska segir að ef silikón sé ekki í bensíninu í litlu magni eða þá í of miklu magni gangi vélin ekki eins og best getur verið, sót myndast og ýmis vandræði verða á gangi bílsins.

Óvíst er hverjir verða látnir bera skaðann af þessum mistökum en breska Viðskiptastofnunin er með málið til meðferðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×