Erlent

Friðsamleg mótmæli í dag

Mótmæli hafa farið friðsamlega fram í Kaupmannahöfn í dag eftir hörð átök lögreglu og mótmælenda síðustu nótt. Deilt er um rýmingu æskulýðsstöðvar á Norðurbrú. Lögregla óttast að þar verði frekari átök í nótt. Íslenskur ljósmyndari segir mótmælendur hafa misst samúð hins venjulega Dana.

Mótmælin hófust með friðsamlegum hætti á Sánkti Hans torgi á Norðurbrú í gærkvöldi. Þar komu vel á annað þúsund manns saman. Til átaka kom milli mótmælenda og lögreglu þegar komið var fram yfir miðnætti. Táragas var notað og mótmælendur svöruðu með eldsprengjum og grjóthnullungum. Kveikt var í fjölda bíla. Einnig kom til átaka í Kristjánshöfn þar sem framhaldsskóli var lagður í rúst.

Hörður Sveinsson, ljósmyndari var á vettvangi í nótt. Hann segir fjölmarga hafa komið á vettvang til að fylgjast með mótmælunum án þess þó að taka þátt í þeim. Hann hafi talað við það fólk en ekki mótmælendur sem hafi verið töluvert trekktir. Hann segir almenna Dani þreytta á ástandinu. Hörður segist hafa séð einn íbúa á Norðurbrú hlaupa út úr húsi sínum með garðslögu til að slökkva eld í ruslatunnu fyrir utan. Kveikt hafi verið í fjölmörgum bílum og íbúar að missa þolinmæðina.

Þorvaldur Flemming Jensen er búsettur í Kaupmannahöfn, hann segir Kaupmannahafnarbúa hafa vaknað upp við vondan draum í morgun. Brunnir bílar hafi legið sem hráviði um sum svæði. Dagurinn hafi þó verið friðsæll og þar með talin tvö þúsund manna motmæli á Ráðhústorginu þaðan sem gengið var að Norðurbrú. Þar hafi mótmælin svo verið leyst upp og spurning hvað gerist næst.

Þorvaldur Flemming segir óeirðalögreglu viðbúna um alla borg í fullum herklæðum. Búist sé við átökum. Rúmlega 500 mótmælendur hafi verið handteknir síðustu 3 daga og fangelsi yfirfull. Á aðalbrautarstöðinni í Kaupmannahöfn í dag hafi lögregla stöðvað ferð 40 Svía sem líklegt hafi verið talið að ætluðu að taka þátt í mótmælunum. Þeir hafi verið sendir heim með fyrstu lest. Þannig sé reynt að gæta þess að mótmælendur streymi ekki til borgarinnar. Þrátt fyrir aðgerðir sé óttast að upp úr sjóði í nótt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×