Innlent

Óljóst hver ber ábyrgð á uppsögnum

Utanríkisráðuneytið og Dómsmálaráðuneytið vísa hvort á annað vegna uppsagna tólf öryggisvarða á Keflavíkurflugvelli og segjast hvorugt bera ábyrgð. Öryggisverðirnir störfuðu hjá Sýslumannsembættinu á Keflavíkurflugvelli, sem áður heyrði undir Utanríkisráðuneytið, en heyrir nú undir Dómsmálaráðuneytið.

Starfsmennirnir voru ráðnir til að gæta eigna varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli eftir að varnarliðið fór þaðan. Nú telur Utanríkisráðuneytið sig ekki þurfa á eins mikilli gæslu að halda og áður. Í morgunblaðinu í morgun er haft eftir Ellisif Tinna Víðisdóttir aðstoðarlögeglustjóri á Suðurnesjum að fyrirmæli hefðu komið frá Utanríkisráðuneytinu um að segja mönnunum upp. Þessu mótmælir Grétar Már Sigurðsson, skrifstofustjóri í Utanríkisráðuneytinu.

Eitthvað virðist vera á reiki hvaða ráðuneyti ber ábyrgð á uppsögnunum. Í samtali við fréttastofu vísaði Björn Bjarnason dómsmálaráðherra á utanríkisráðuneytið. Þessu vísar Grétar már beint aftur til föðurhúsanna.

Ellisif Tinna Víðisdóttir aðstoðarlögreglustjóri á Suðurnesjum, segir alrangt að sýslumannsembættið beri ábyrgð á uppsögnum öryggisvarða. Hún segir Grétar hafa hringt til sín í síðustu viku og sagt sér að segja mönnunum upp, enda heyri hluti sýslumannsembættisins enn undir utanríkisráðuneytið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×