Erlent

Átta ára og tæp 100 kíló

Bresk yfirvöld íhuguðu það að taka átta ára dreng frá móður sinni og setja í öryggisgæslu vegna offitu. Drengurinn er rétt tæp 100 kíló, rúmlega þrefalt þyngri en jafnaldrar hans.

Við tveggja og hálfs ára aldur var Connor McCreaddie orðinn það þungur að móðir hans átti í erfiðleikum með að lyfta honum. Þegar hann var 5 ára vó hann 57 kíló. Hann er nú rétt tæp 100 kíló og aðeins 1,52 m á hæð. Connor býr með móður sinni og systur. Hann á í erfiðleikum með að klæða sig og þvo. Hann er heilsuveill og missir því oft úr skóla. Hann er ítrekað skotmark hrekkjusvína á skólalóðinni.

Móðir Connors, Nicola McKeown, segir hann alltaf svangan. Hún hafi ítrekað reynt að fá hjálp við að grenna hann. Hann sé hins vegar alltaf í eldhúsinu í leit að mat. Hann fari aftur og aftur í ísskápinn. Hann kíki inn í hann og skelli svo aftur hurðinni. Hún sé alltaf að banna honum að ná sér í mat í ísskápinn - hann eigi að bíða fram að matmálstíma. Raunin sé hins vegar sú að hann hafi fæðst svangur. Hann hafi alltaf verið mikið svangur. Connor segir beikon það besta sem hann fái en kjúklingur, steik og pylsur séu ekki langt undan.

Bresk barnaverndaryfirvöld segja mælinn nú fullan. Móðir Connors hafi ekki tekist að hjálpa syni sínum og þetta sé dæmi um illa meðferð á börnum. Nú þurfi að athuga hvort það eigi að taka hann frá móður sinni og setja hann í verndargæslu. Í kvöld var síðan ákveðið að leyfa drengnum að vera áfram hjá móður sinni.

Sérfræðingar segja mikla hættu á að Connor verði kominn með sykursýki við upphaf unglingsáranna verði ekkert að gert. Auk þess gæti hann þurft að berjast við taugakvilla og hjarta- og æðasjúkdóma strax um tvítugt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×