Erlent

Bandaríkjamenn véfengja fullyrðingar Írana um geimskot

Ahmadinejad heldur stefnu sinni þrátt fyrir mikla gagnrýni innanlands.
Ahmadinejad heldur stefnu sinni þrátt fyrir mikla gagnrýni innanlands. MYND/AP
Bandaríski herinn segist ekki hafa neinar sannanir fyrir því að Íranar hafi skotið eldflaug út í geim og grunar að þeir hafi aldrei gert það. Íranskir embættismenn skýrðu frá því á sunnudaginn var að þeir hefðu skotði eldflaug út í geim í rannsóknartilgangi og að hún hefði náð 150 kílómetra hæð. Hún hefði þó ekki komist á sporbaug um jörðu.

Bandaríkjamenn segja mjög ólíklegt að þeir hefðu ekki tekið eftir geimskotinu. Ríkisfréttastöð Írans sagði á sunnudaginn að þetta hefði verið í fyrsta sinn sem Íran hefði tekist að skjóta eldflaug út í geim. Hún á að hafa borið efni sem var ætlað til rannsókna.

Mahmoud Ahmadinejad, forseti Írans, sagði í gær að það væri ekki hægt að stöðva framgang kjarnorkuáætlunar þeirra. Hann hefur sætt mikilli gagnrýni heima fyrir vegna afstöðu sinnar í kjarnorkumálum. Landsmenn telja að framferði hans auki líkur á hörðum refsiaðgerðum gegn landinu og jafnvel innrás Bandaríkjanna. Harðlínumenn úr hópi stuðningsmanna Ahmadinejads hafa jafnvel gagnrýnt hann. Í sveitastjórnarkosningum í Íran í desember var ágreiningurinn orðinn svo mikill að harðlínumenn buðu fram á tveimur listum, eitthvað sem hefur aldrei gerst áður, og tapaði Ahmadinjad miklu fylgi. Hann hefur þó engan bilbug látið á sér finna og segir að hann muni sjá til þess að Íran þrói með sér kjarnorku til þess að nýta í friðsamlegum tilgangi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×